Sunnudaginn 11. október í Hallgrímskirkju kl. 11 mun sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédika og þjóna fyrir altari ásamt sr. Árna Svani Daníelssyni. Messuþjónar og fermingarbörn aðstoða og félagar úr Mótettukórnum syngja. Hörður Áskelsson leikur á orgelið. Barnastarfið hefst á sama tíma í umsjón Ingu Harðardóttur, Rósu Árnadóttur og Sólveigar Önnu Aradóttur. Kaffisopi eftir messu, verið hjartanlega velkomin. Stuttur fundur með fermingarbörnum og foreldrum þeirra eftir messu.
Sálmar:
34 Upp, skapað allt í heimi hér.
Kórsöngur milli lestra
743 Hallelúja
916 Hver getur vakað um heimsins nótt?
367 Eigi stjörnum ofar
47 Gegnum Jesú helgast hjarta
Textar þennan sunnudag, sem er 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð eru þessir:
Lexía: Slm 30.2-6
Ég lofa þig, Drottinn, því að þú dróst mig upp úr djúpinu
og lést óvini mína ekki hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín
og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr helju,
lést mig halda lífi þegar aðrir gengu til grafar.
Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur
en gleðisöngur að morgni.
Pistill: Fil 4.8-13
Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.
Ég gleðst mjög og þakka Drottni fyrir að hagur ykkar hefur loks batnað svo aftur að þið gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þið hugsað til mín en gátuð ekki sýnt það í verki. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.
Guðspjall: Jóh 9.1-11
Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?
Jesús svaraði: Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.
Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi.
Nágrannar hans og þeir sem höfðu áður séð hann ölmusumann sögðu þá: Er þetta ekki sá er setið hefur og beðið sér ölmusu?
Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum.
Sjálfur sagði hann: Ég er sá.
Þá sögðu þeir við hann: Hvernig fékkst þú sjónina?
Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gerði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina þegar ég var búinn að þvo mér.