Dr. Sigurður Árni Þórðarson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt sr. Jón Dalbú Hróbjartssyni og messuþjónum. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja og organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Í lok messunar mun Jóhannes Pálmason, formaður sóknarnefndar, gera grein fyrir framlögum Hallgrímskirkju á árinu 2015 til Hjálparstarfs kirkjunnar og Kristniboðssambandsins. Bjarni Gíslason og Kristín Bjarnadóttir, sem nú stýra þessum samtökum lesa lestra í messunni og taka með formlegum hætti við framlögum krikjunnar. Barnastarf er í umsjá Ingu Harðardóttur. Kaffisopi eftir messu. Verið hjartanlega velkomin.
Textar:
Lexía: Jer 9.22-23
Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.
Pistill: 1Kor 9.24-27
Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.
Guðspjall: Matt 20.1-16
Jesús sagði þessa dæmisögu: Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.
Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.
Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?
Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.