Þessi er minn elskaði sonur.
Fyrsti sunnudagur eftir þrettánda Skírn Jesú
Nú er hátíðatíminn að baki og hversdagurinn tekinn við. Eins og maður hlakkar til jóla og áramóta þá er það líka alveg ágætt þegar lífið fer aftur í sínar föstu skorður. Mér finnst ég hafa heyrt að skólabörnin séu til dæmis bara fegin að koma aftur í skólann og hitta félagana og fá verkefnum að sinna. Frí eru ágæt en verkefni og annir dagsins eru samt alltaf grunnurinn.
Textar þessa tíma í helgihaldinu eiga það sammerkt að ganga út frá upphafi á einn eða annan hátt. Barnið fæðist, barn er borið í musterið, vitringar koma í heimsókn. Og nú er það skírn Jesú. Þar með hefst hans boðunartími. Við þekkjum þetta vel hann fer eftir skírn sína út í eyðimörkina að biðjast fyrir og fasta, búa sig undir það sem framundan er. Að standast freistingar þegar svo mikið vald er þér falið.
Síðar verður það svo að skírnin fær þann sess að verða heilög vígsluathöfn þeirra sem vilja gangast Jesú Kristi á hönd og verða að meðlimum safnaða hans. Í kveðjuorðum sínum í Mattheusarguðspjalli hvetur hann til þess að gera allar þjóðir að lærisveinum og skíra til nafns föður sonar og heilags anda.
Að vatn tengist helgiathöfnum og trúarlegu atferli er ekki bundið við kristna trú. Trúarhópur sá sem hafðist við í hellum við Dauðahafið safnaði leysingavatni í risastórar þrær sem grafnar hafa verið upp og heimildir og minjar sína að þar hafa hreinsunarathafnir verið mikilvægur hluti af þeirra trúarlega ritúali og helgihaldi.
Nú nýlega sáum við í fréttum sagt frá árlegri hátíð hindúa í Indlandi þar sem fólk fer og baðar sig í ánni Ganges og þannig á táknrænan hátt þvær af sér syndir.
Vatnið í sjálfu sér er dýrmætt tákn, þessi forsenda lífsins sem það er og líkamleg hreinsun kallast á við þá andlegu hreinsun sem maðurinn þráir og leitar eftir.
Guðspjöllin segja ekkert um Jesú frá því hann er tólf ára í musterinu og þar til hann stígur þarna aftur inn á sviðið fullþroskaður maður.
Hvað hann gerði og fékkst við er þannig á huldu, við vitum að Jósef var smiður og því ekki ólíklegt að Jesú hafi fengist við það með honum.
Þegar hann stígur upp úr vatninu þá gerist þetta undur að andi Guðs stígur niður eins og dúfa og rödd af himnum segir þessi mikilvægu orð: „þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á“.
Þetta er stórkostleg frásögn og listamenn hafa á öllum öldum túlkað og notað þau tákn sem þarna birtast. Dúfan er tákn heilags anda og friðar.
En svo má líka sjá í þessu mikilvægt tákn fyrir okkur í eigin lífi og samskiptum kynslóða og uppeldi barna. Öll viljum við veita börnum okkar sem best veganesti út í lífið. Við leitumst við að kenna þeim ákveðna hegðun og láta þeim í té vitneskju og þekkingu af ýmsu tagi. Þó má segja að það sem mestu skipti sé hvernig til tekst með að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd. Allt er þetta flókið og aldrei hægt að vita með vissu hver niðurstaðan verður, barnið lifir ekki bara með foreldrum sínum, það er hluti af heiminum og á í margskonar samskiptum. Alls kyns reynsla og margháttaðar breytur koma þarna inn. Þó má segja að fátt sé meira virði en vitund um að vera elskaður eða elskuð. Og það sem mest er um vert er að vera elskaður án þess að vinna til þess á einhvern hátt. Að fá að vaxa upp í þessari vitund að fólkið manns láti sér annt um mann og vilji manni allt hið besta. Sem betur fer er það staða flestra barna þótt dæmin séu alltof mörg um hið gangstæða og að börnin verði bitbein foreldranna.
Þetta grundvallarviðhorf elskunnar ætti samt ekki að hafa þau áhrif að ekki séu gerðar kröfur til barnsins og unglingsins. Endalaus hrós fyrir allt og ekkert gerir ekki annað en gengisfella merkingu og þann hvata sem hrós fyrir raunverulegan árangur hefur. Þegar allt er frábært og stórkostlegt sem barnið gerir þá verða hrósyrðin einskis virði. Þetta á heldur ekki að hafa þau áhrif að börnum séu ekki settar ákveðnar skorður í hegðun og framkomu. Það eru stórlega misskilin gæði að láta allt eftir börnum sínum og setja þeim enga ramma eða skorður. Það mætti láta sér til hugar koma að að baki slíkri hegðun sé framar öðru leti. Það kostar vissulega orku að setja reglur og standa við þær en það er einmitt það sem skapar ungviði öryggiskennd að finna sig í traustu utanumhaldi.
Þessi orð sem vitnað var til eru því gríðarlega mikilvæg í okkar lífi sem tengjum okkur við kristna trú. Þetta er yfirlýsing um eðli þess Guðs sem við játum trú á. Þarna er verið að leggja í erfiða ferð og henni er fylgt úr hlaði með yfirlýsingu um kærleikann. Ekkert er sagt um hæfileika eða getu á einhverjum sviðum. Bara þetta eitt ég elska þennan einstakling.
Hver sá einstaklingur sem stígur út í veröldina með þessi orð kærleikans í eyrum sér er líklegri til að sína öðru fólki umhyggjusama hegðun, hann er ólíklegri til þess að fyllast ótta og kvíða gagnvart áskorunum lífsins og kröfum, hann veit af sínu trausta baklandi, þessa heims og annars.
Það sem meira er í þessu samhengi. Við sjáum í spádómsorðum Jesaja spámanns að Guð hefir ætlað okkur mikilvægt hlutverk hann kallar okkur til starfa og þjónustu. Hann hefur okkur í huga í sinni ráðsályktun. Spámaðurinn skynjar og túlkar þessa stöðu: Ég er dýrmætur í augum Drottins og Guð minn varð minn styrkur.
Vitneskjan og tilfinningin fyrir því að eiga sér öruggt bakland í trú sinni og vitund um kærleiksríkan Guð er ómetanleg. Hún tryggir engum neitt umfram aðra í áhættuleik lífsins en hún gefur dýrmæta hugarró og styrk.
„Þessi er minn elskaði sonur“. Með þessi orð gekk frelsarinn Jesús Kristur á stað í sína boðunarferð um sitt land og meðal síns fólks en síðan um heiminn allan þar sem orð hans og gjörðir hafa breytt og göfgað líf milljarða manna. Biðjum þess að svo megi áfram verða og vonin um heim réttlætis og frið lifi.
Sr. Eiríkur Jóhannsson, prestur í Hallgrímskirkju
Lexía: Jes 49. 1-7
Hlýðið á mig, eylönd,
hyggið að, fjarlægu þjóðir.
Drottinn hefur kallað mig allt frá móðurlífi,
nefnt mig með nafni frá því ég var í móðurkviði.
Hann gerði munn minn sem beitt sverð
og huldi mig í skugga handar sinnar.
Hann gerði mig að hvassri ör
og faldi mig í örvamæli sínum.
Hann sagði við mig: „Þú ert þjónn minn,
Ísrael, ég læt þig birta dýrð mína.“
En ég svaraði: „Ég hef erfiðað til ónýtis,
sóað kröftum mínum til einskis og út í vindinn
en réttur minn er hjá Drottni
og laun mín hjá Guði mínum.“
En nú segir Drottinn,
hann sem myndaði mig í móðurlífi
til að vera þjónn sinn,
til að ég sneri Jakobi aftur til sín
og til að Ísrael yrði safnað saman hjá honum.
Ég er dýrmætur í augum Drottins
og Guð minn varð minn styrkur.
Hann segir: Það er of lítið að þú sért þjónn minn
til að endurreisa ættbálka Jakobs
og leiða þá aftur heim
sem varðveist hafa af Ísrael.
Ég geri þig að ljósi fyrir þjóðirnar
svo að hjálpræði mitt nái allt til endimarka jarðar.
Svo segir Drottinn, lausnari Ísraels, hans heilagi,
við hinn fyrirlitna
sem fólk hefur andstyggð á,
við þjón harðstjóranna:
Konungar munu sjá þetta og rísa upp,
höfðingjar falla fram
vegna Drottins sem er trúr,
vegna Hins heilaga Ísraels sem valdi þig.
Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Guðspjall: Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“