Tónleikar 27. júlí kl. 12

25. júlí 2017
 







 

Fimmtudaginn 27. júlí kl. 12


Tónlist eftir: H. Schütz, J.S. Bach, A. Dvorák, F. Mendelssohn


Hjónin Inga Rós Ingólfsdóttir og Hörður Áskelsson fóru til náms í Düsseldorf í Robert Schumann tónlistarháskólanum haustið 1976. Þar kynntust þau Andreas Schmidt en hann og Hörður voru þá
báðir í framhaldsnámi í kirkjutónlistardeildinni. Hörður hélt áfram með kirkjutónlistina á meðan Andreas fór alfarið yfir í sönginn og lærði hjá Ingeborg Reichelt og Dietrich Fischer-Dieskau. Strax á námsárunum mynduðu þau tríó sem kom fram á tónleikum bæði í Þýskalandi og á Íslandi, auk þess sem þau komu fram á sérstökum tónleikum í sjónvarpssal íslenska sjónvarpsins. Mótettukór Hallgrímskirkju kom í fyrsta sinn fram á tónleikum þar sem Andreas Schmidt söng tvær einsöngskantötur eftir Bach haustið 1982 í kapellunni í suðursal Hallgrímskirkju.

Inga Rós hefur leikið í Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1982 og var í áratugi fastur félagi í Kammersveit Reykjavíkur. Undanfarin ár hefur hún einnig verið framkvæmdastjóri Listvinafélags Hallgrímskirkju og Kirkjulistahátíðar.

Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju, stjórnandi Mótettukórs Hallgrímskirkju og Schola cantorum auk þess að vera listrænn stjórnandi Listvinafélagsins og hátíðum á vegum þess.

Frumraun Andreasar Schmidt á óperusviðinu var sem Malatesta í óperunni Don Pasquale eftir onizetti árið 1984. Hann hefur komið fram í flestum þekktustu óperuhúsunum, svo sem La Scala, Covent Garden og á Metropolitan. Þá er hann einnig virtur óratóríu- og ljóðasöngvari og hefur m.a. komið fram sem slíkur hér á Íslandi. Hann kenndi söng við Carl Maria von Weber tónlistarskólann í Dresden frá 2005 og frá 2010 við Hochshule für Musik und Theater München.

Upplýingar um Alþjóðlega Orgelsumarið í Hallgrímskirkju HÉR.

Hádegistónleikar – 30 min: 2.000 ISK