Ágætt tímarit, Grapevine, er gefið út hér á landi og fjallar um íslensk málefni fyrir enskumælandi fólk. Nýlega var því haldið fram í þessu riti að vegna nútímaviðmiða hefði trúin hopað. Ein rökin eru að meðlimafjöldi þjóðkirkjunnar hafi minnkað. Á þrjátíu árum hefur fjöldinn lækkað um tuttugu prósent. En þrátt fyrir breytingar í kirkjuefnum er trúin ekki að hverfa. Kristnum mönnum fjölgar í heiminum og trúin lifir þvert á trú þeirra sem halda að trúin sé að hverfa.
Hvað er trú?
Sumir telja í einfeldni sinni að trúnni fylgi óhjákvæmilega forvísindalegar hugmyndir um líf, vísindi og veröldina. Því sé trúin dæmd til að gufa upp í ljóma nýrrar þekkingar. Það er Grapevinetúlkunin. Það er rangt, trú er ekki gamaldags hugmyndir heldur mun róttækara fyrirbæri. Aðrir telja að trú sé það að samþykkja bókstafsútgáfu helgirita. Trúað fólk sé þröngsýnislið. En slík túlkun á trú getur átt við um ofbeldishópa af ISIS-taginu en ekki eiginlega trú. Síðan eru þau sem telja að trú sé einhvers konar rétttrúnaður af sannfæringartaginu.
En trúað fólk sér sig ekki í þessum nálgunum. Þetta eru afbakanir, smættanir sem byrja á röngum stað og ná aldrei aðalatriðinu. Svona einfaldanir byrja allar með því að einblína á fólk og hið smáa, hvernig menn bindi sig á einhvern klafa heimatilbúinnar speki.
En trú er allt annað og mun róttækara fyrirbæri. Trú er ekki yfirborðslegar skoðanir og alls ekki forvísindaleg lífssýn. Trú er dýpri og stærri. Trú er ekki fasteign eða staða sem menn ávinna sér með því að vera meðlimir í kirkjudeild eða stofnun. Trú finnur sér vissulega farveg, en lifir þó breytingar verði í þjóðfélagi og menningu. Trú er ekki háð kirkjustofnunum en kirkjur eru hins vegar háðar trú. Trú er aldrei til án Guðs. Trú lifir ekki án þess að tengjast Guði. Trú er undur sem Guð kallar fram.
Trú er það djúptækasta sem til er, lífsfestan sjálf. Það er eðlilegt að fólk hafni gamaldags trú. Trúarkenningar breytast því samfélag, skilningur fólks og viðmið hafa breyst. Þar með hættir Guði ekki að vera til. Guð er fólki nánari en maki, foreldrar eða börn. Guð er nánari en vitund okkar. Guð er hinsta og dýpsta viðmið hvers manns.
Ekki á útleið heldur innleið
Er þá trúin ekki á útleið? Nei, þó þjóðfélag og stofnanir breytist hverfur trúin ekki aðeins hugmyndir fólks. Trú getur blómstrað þótt kirkjufélag tapi öllum meðlimum sínum og hverfi. Heilbrigð gagnrýni og aukin þekking grisjar burt veiklaðar eða úreltar hugmyndir um heim, fólk og líka kenningar. En trúin hverfur ekki þótt í ljós hafi komið að sköpunarsagan sé ekki náttúrufræði heldur ljóð sem tjáir tilgang og samhengi lífsins. Trú hvetur til hugmyndagrisjunar. Þar sem trú er hinsta viðmið fólks beinist hún gegn yfirborðsnálgun. Trú þolir ágætlega að fólk segir skilið við manngerða trú. Trú hvetur til ævarandi siðbótar.
Lífsfestan sjálf
Tenging við Guð leiðir til lífssýnar og kallar á túlkun trúarreynslu. Öll þau sem hafa verið upplýst af trú fara að sjá veröldina sem mikinn veraldarvef sem er ofinn og magnaður af Guði. Veröldin er samsett af efni og anda. Geimi og grösum er gefin skipan og lögmál sem trúin kennir við Guð. Hver maður er undur sem Guð gefur. Og einu gildir hvort viðkomandi þakkar Guði tilveru sína eða þykist vera aðeins af sjálfum sér og skýrir tilveru sína af efnisrökunum einum. Í öllu lífi glitrar fegurð, máttur og mikilleiki. Við veljum sjálf hvort við sjáum í undri veraldar aðeins tilviljun eða nemum hið mesta og stærsta - undur Guðs.
Hvað skiptir þig mestu máli, er hinsta viðmið þitt og lífsfesta? Þar er trú þín og þar talar Guð við þig.