Í tísku að vera í kvenfélagi

07. mars 2016


Á konudaginn, 21. febrúar sl. flutti Hjördís Jensdóttir kvenfélagskona og messuþjónn eftirfarandi hugvekju um gildi og starf kvenfélaga:
Kæru kirkjugestir !

Vitið þið að það er í tísku að vera í kvenfélagi ?
Konur á öllum aldri er í allskonar kvenfélögum og gera þar mörg kraftaverkin.

Kvenfélög um allt land hafa gefið milljarða til samfélagsins og ég gæti verið í allan dag að telja upp alla þá styrki.

En ég ætla að segja ykkur aðeins frá kvenfélaginu okkar hér í Hallgrímskirkju

Félagið var stofnað 8. mars 1942 . Hugsjónakonurnar sem stofnuðu félagið höfðu að markmiði að safna fyrir búnaði í verðandi kirkjubyggingu sem hófst árið 1944 og hefur félagið gefið stórar upphæðir til uppbyggingar kirkjunnar.

Þarna fóru konur með hugsjón.

Enn eru konur í kvenfélaginu með hugsjón, og eru stoltar af að styðja enn við starfsemi kirkjunnar og eru verkefnin nóg bæði hér innandyra og líka úti í hverfinu.

Margir af gripum kirkjunnar eru gefnir af kvenfélaginu, meðal annars fallegi skírnarfonturinn.

Nýr formaður var kosinn á síðasta ári Guðrún Gunnarsdóttir kennari við Austurbæjarskólann, tók hún við af Ásu Guðjónsdóttur sem er búin að vera formaður í mörg ár og gert góða hluti, á hún þakkir skilið fyrir óeigingjarnt starf.

Fundir eru haldnir mánaðarlega og ýmislegt er gert, t.d.farið er í ferðalög vor og haust, sem hafa alltaf verið mjög vel heppnuð og verið vinsæl meðal karla og kvenna.

Jólafundur og þorrablót eru einnig fastir liðir í starfseminni. Konur í kvenfélögum eru ekki bara að prjóna eða baka eins og margir halda þó að þær séu mjög flínkar í því.

Kvenfélagið er innan BKR í Reykjavík, bandalagi kvenna. Og á þar fulltrúa í stjórn og nefndum, sem gefur tækifæri á að kynnast starfsemi annara félaga í bandalaginu eins og td Hringnum, Thorvaldssenfélaginu, Hvítabandinu og mörgum fleiri öflugum félögum.

Bandalagið býður líka upp á fræðandi fundi um ýmiss mál sem aðallega varða konur og börn. Ræðunámskeið og námskeið um fundarsköp og margt fleira er gert, sem kemur konum að gagni.

Ef ég væri ekki að tala hér beint við ykkur en væri á fésbókinni bæði ég ykkur auðvitað um að læka og deila en ég er hér - eins og þið og ég bið ykkur um að láta það berast að það er pláss fyrir fleiri konur í Kvenfélag Hallgrímskirkju.

Tekið verður við skráningu nýrra félaga í kaffinu hér á eftir.

Ég byrjaði á að segja að það væri í tísku að vera í kvenfélagi og ekki vilja allir elta tískuna en það er mjög gefandi starf að hjálpa til við að bæta samfélagið, og það gera konur í kvenfélögum.

Velkomnar í kvenfélag Hallgrímssóknar

Til hamingu með konudaginn.

Hjördís Jensdóttir