Sunnudaginn 24. nóvember kl. 17 Dómkórinn flytur verk eftir Jón Nordal og tvo afasyni hans
Því er oft haldið fram með alltraustri vissu að tónlist gangi í erfðir. Sú kenning staðfestist á tónleikum Dómkórsins í Hallgrímskirkju sunnudaginn 24. nóvember kl. 17 næstkomandi. Þar verða flutt verk eftir þrjá langfeðga af Nordalsætt. Sá elsti er Jón Nordal sem lagt hefur drjúgan skerf af mörkum til íslenskrar tónlistarsögu. Með honum í för verða tveir afasynir hans, Hjalti og Þorkell Nordal sem eru að stíga sín fyrstu skref á tónskáldabrautinni.
Eftir Jón Nordal verða fluttir Óttusöngvar að vori, sem voru frumfluttir í Skálholtskirkju í júlí 1993. Verk Þorkels Nordal, Orðfæri og verk Hjalta Nordal, Umbót, eru samin að beiðni Dómkórsins og fyrir hann og frumflutt á tónleikunum í Hallgrímskirkju. Einsöngvarar með kórnum verða þau Harpa Ósk Björnsdóttir sópran og Jón Svavar Jósefsson kontratenór. Inga Rós Ingólfsdóttir leikur á selló, Frank Aarnink á slagverk og Björn Steinar Sólbergsson á orgel. Stjórnandi er Kári Þormar dómorganisti.
Dómkórinn hefur haldið fjölda tónleika bæði hérlendis og erlendis og hefur hvarvetna hlotið lof fyrir, nú síðast í Salzburg þar sem kórinn vann til verðlauna í alþjóðlegri kórakeppni. Kórinn keppti í tveimur flokkum, flokki trúarlegrar tónlistar og flokki blandaðra kóra og hlaut þar gullviðurkenningu, auk þess að hreppa annað sætið í báðum flokkum á eftir sigurkór heildarkeppninnar. Verkefnaval kórsins hefur verið fjölbreytt en meðal annars hefur kórinn flutt ýmis stórvirki tónbókmenntanna og má þar nefna Þýska sálumessu Jóhannesar Brahms, Jólaóratoríu Jóhanns Sebastians Bach, Requiem eftir Wolfgang Amadeus Mozart, Messías eftir Händel, Jóhannesarpassíu Jóhanns Sebastians Bach og sálumessur eftir Maurice Duruflé og Gabriel Fauré.
Aðgangseyrir: 3.500 kr. Miðasala inn á tix.is og 1 klst. fyrir tónleika í fordyri kirkjunnar.