Um 800 leik- og grunnskólabörn komu og sáu Jólin hans Hallgríms í Hallgrímskirkju í desember.

21. desember 2023

Í dag 21. desember 2023 lauk sýningum á Jólunum hans Hallgríms í Hallgrímskirkju í ár. Leiksýningin er byggð á sögu Steinunnar Jóhannesdóttur og er þetta í níunda sinn sem sagan var sett upp. Um 800 leik- og grunnskólabörn heimsóttu Hallgrímskirkju í desember og sáu sýninguna og má svo sannarlega segja að það hafi verið líf og fjör í krirkjunni. Börnin sem komu í heimsókn fengu að sjá, ekki einn, heldur tvo Hallgríma Péturssyni, heyra Björn Steinar Sólbergsson organista spila jólalög á stærsta hljóðfæri Íslands og ef þau voru heppin fengu þau einnig að sjá landsins stærstu tær!

Bókin segir frá undirbúningi jólanna hjá Hallgrími Péturssyni sem ungum dreng og fjölskyldu hans. Í þessari glænýju sviðsetningu Pálma Freys Haukssonar og Níelsar Thibaud Girerd fengu börnin að heimsækja gamla baðstofu á sveitabænum Gröf á Höfðaströnd, sem sett var upp í Norðursal kirkjunnar, og kynntust þau því hvernig jólin voru haldin hátíðleg fyrir 400 árum.
Leikararnir brugðu sér í líki persóna bókarinnar og sjá má þar á meðal Hallgrím Pétursson sem sjö ára prakkara.

Þótt margt hafi breyst á fjórum öldum er þó ýmislegt kunnuglegt við undirbúning jólanna og þá helst hvernig ljós kviknar í hjörtum mannanna þótt skammdegismyrkur grúfi yfir.

Hér að neðan er lýsandi Facebook færsla Steinunnar Jóhannsdóttur, höfundar sögunnar, um upplifun hennar á sýningunni í ár, 

"JÓLIN HANS HALLGRÍMS heitir verkefni sem tilheyrir jólaföstunni eða aðventunni í Hallgrímskirkju. Verkefnið hefur þróast ár frá ári og umsjón að þessu sinni er í höndum Unnar Sesselju Ólafsdóttur. Unnur réði tvo unga leikara sem kalla sig HALLGRÍM og HALLGRÍM, en heita annars Pálmi Freyr Hauksson og Níels Thibaud Girerd. Þeir bjóða skólabörn velkomin í kirkjuna til að fræðast um GÖMLU JÓLIN og ögn um bygginguna sjálfa. Hallgrímarnir eiga fyrst opið spjall við börnin en bjóða þeim svo að elta túristana inn í stóra rýmið og hitta organistann Björn Steinar. Hann kynnir fyrir þeim stærsta hljóðfæri landsins, PÍPUORGELIÐ (þótt slík hljóðfæri væru ekki til á Íslandi á dögum Hallgríms!). Björn sýnir börnunum nótnaborðin og pípurnar og óteljandi möguleika þeirra til að framleiða hljóð og tónlist, bæði ljúfa og ofsafengna og allt þar á milli. Svo býðst börnunum að syngja jólalag eða kvæði sem þau kunna við undirleik organistans. Og túristarnir klappa!
Lokaatriði í heimsókninni er stutt LEIKSÝNING byggð á sögu undirritaðrar og myndum ÖNNU CYNTHIU LEPLAR um jólin eins og þau voru þegar Hallgrímur Pétursson var barn. Og Hallgrímarnir tveir bregða sér í líki 7 ára stráks, foreldra hans systkina, vinnufólksins á bænum og jafnvel dýranna til að sýna tilhlökkun barnanna forðum tíð og þátttöku þeirra í undirbúningi jólanna. Hvernig börnin fengu dagana til að líða með því að læra VÖGGUKVÆÐI og fylgjast með gangi tunglsins um himingeiminn, anda að sér ilminum þegar bakað var og soðið til jólanna, tálga ný leikföng með hjálp afa, fyrir utan þátttöku í daglegu striti eins og að fara í fjósið og fjárhúsin. En það er einmitt í FJÓSUM og FJÁRHÚSUM sem UNDUR jólanna verða.
 
Það mátti heyra saumnál detta þegar mér bauðst að horfa með börnunum, svo einlæg var hlustunin. Í viðurkenningarskyni buðu Hallgrímarnir þeim að kíkja aftur inn í kirkjuna og skoða stærstu tær sem vitað er um hér um slóðir. Svo var kvaðst með hraði, því nýr barnahópur var mættur í andyrinu.
 
Sýningin JÓLIN HANS HALLGRÍMS á uppruna sinn í Þjóðminjasafninu sem bauð börnum að kynnast jólahaldi genginna kynslóða í gegnum þessa sögu um barnið sem skáldið mikla var í upphafi. Sýningin var opnuð á jólaföstu 2014 þegar þess var minnst að 400 ár voru liðin frá fæðingu Hallgríms Péturssonar. Sýningin var sett upp í nýrri útfærslu í Hallgrímskirkju ári síðar undir stjórn Ingu Harðardóttur, þáverandi umsjónarmanns með barnastarfi kirkjunnar, en síðan þróuð áfram af Kristnýju Rós Gústavsdóttur, djákna, sem tók til við að færa hana að hluta í leikrænan búning. Ofan á grunninn sem þær lögðu byggir svo núverandi þrenning, Unnur Sesselía, Pálmi Freyr og Níels, nýjustu útfærsluna.
 
Sem höfundur sögunnar er ég AFAR ÞAKKLÁT Hallgrímskirkju og þessu hugmyndaríka, unga fólki, sem hefur þróað verkefnið áfram, hvert út frá sínum forsendum og færni. Og svo öllum hjartkæru BÖRNUNUM sem komið hafa með opnum huga, sagt eigin sögur og spurt ótal spurninga um skáldið og kirkjuna sem reist var í minningu þess.
 
JÓLIN HANS HALLGRÍMS eiga vonandi framtíðina fyrir sér í HALLGRÍMSKIRKJU.
Að svo mæltu óska ég ykkur vinum mínum á Fb innilegra, já jafnvel barnslega GLEÐILEGRA JÓLA!"
 
Bað Steinunn höfund þessarar greinarinnar um að koma sínu þakklæti sem best til skila til Hallgrímanna tveggja, Unnar Sesselíu Ólafsdóttur verkefnastjóra, Kristnýjar Rósar Gústafsdóttur og Ingu Harðardóttur. Þess ber að geta að Kristný Rós og Inga fyrrum æskulýðsfulltrúar Hallgrímskirkju buðu upp á skólaheimsóknir í kirkjuna á aðventu frá árinu 2015 og unnu texta og verkefni úr áðurnefndri bók Steinunnar.
 
Við getum sko sannarlega tekið undir orð hennar og erum við í Hallgrímskirkju Steinunni einstaklega þakklát fyrir upphafið af þessu skemmtilega verkefni, bókina Jólin hans Hallgríms. 
 
Með þessum orðum óskum við í Hallgrímskirkju eins og Steinunn öllum að lokum "barnslega gleðilegra jóla" og hlökkum til tíunda ársins með Hallgrími hinum unga á Gröf á Höfðaströnd.
 
Meðfylgjandi myndir tók Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir ljósmyndari.
 
Hallgrímskirkja - Þinn staður á jólunum!