Upphaf Orgelsumars í Hallgrímskirkju

27. júní 2023
Fréttir
Orgelsumar í Hallgrímskirkju verður haldið hátíðlegt frá 2. júlí til 20. ágúst í sumar 2023. Í ár eru liðin 150 ár frá fæðingu síðrómantíska tónskáldsins Max Reger. Á tónleikum sumarsins fagnar Orgelsumar í Hallgrímskirkju þessu merku tímamótum.
 
Fjórtán íslenskir og erlendir organistar leyfa Klais-orgeli Hallgrímskirkju að hljóma á laugardögum frá kl 12-12.30 og á sunnudögum frá kl. 17-18 í júlí og ágúst. Á Menningarnótt, laugardaginn 19. ágúst milli kl. 14-18 verður viðburðurinn Sálmafoss þar sem fjölmargir kórar og organistar munu koma fram í kirkjunni. Orgelsumrinu lýkur svo með lokatónleikum Inger Lise Ulsrud, organista frá Uranienborg kirke í Osló, Noregi, sunnudaginn 20. ágúst kl. 17.
Á upphafstónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju, sunnudaginn 2. júlí kl. 17 flytur Björn Steinar Sólbergsson organisti í Hallgrímskirkju verk eftir Max Reger, Pál Ísólfsson og Alexandre Guilmant á Klais Orgelið.
Miðar fást við innganginn og á https://tix.is/is/event/15674/
Aðgangseyrir 3.500 kr.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju í Reykjavík. Hann kennir jafnframt orgelleik við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskóla Íslands.
Björn Steinar stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík. Meðal kennara hans þar voru Haukur Guðlaugsson og Fríða Lárusdóttir. Framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu hjá James E. Göettsche og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison hjá Susan Landale þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann að uppbyggingu tónlistarstarfs við kirkjuna.
Björn Steinar hefur haldið fjölda einleikstónleika hér heima, á öllum norðurlöndunum, í Evrópu og norður-Ameríku. Hann hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra. Hann hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a. öll orgelverk Páls Ísólfssonar hjá Skálholtsútgáfunni og orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda.
Björn Steinar hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Listamannalaun 1999 og 2015. Í ár kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, í Danmörku og Þýskalandi.
Efnisskrá:
Max Reger (1873–1916)
Introduction und passacaglia, WoO IV/6, í d-moll
Romanze WoO IV/11, í a-moll
Páll Ísólfsson
Three Piano Pieces / transcription; Björn Steinar Sólbergsson
Burlesca
Intermezzo
Capriccio
Alexandre Guilmant (1837–1911)
Première Sonate op. 42, í d-moll
Introduction et allegro
Pastorale
Final