Hátíðlegt á upphafstónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju

08. júlí

Frábærir opnunartónleikar Orgelsumars og hátíðleg stemning

Orgelsumar í Hallgrímskirkju er hafið og voru opnunatónleikarnur einstaklega hátíðlegir. Sólin skein skært á organistann. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir opnaði hátíðina og bauð tónleikagesti velkomna með fallegri ræðu og efnisská Kjartans Jósefssonar Ognibene var bæði glæsileg og vel saman sett með frábærum verkum, meðal annars frumsamið verk "Gefðu að móðurmálið mitt" sem hlaut mikið lof áheyrenda.

Kjartan sem fæddur er árið 1991 hefur lokið MA gráðu í orgel- og kirkjutónlist frá Konunglega danska Tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn (DKDM) og hélt hann masterstónleika í Grundtvigs Kirke sumarið 2023 þar sem hann hlaut hæstu einkunn og einróma lof fyrir frammistöðuna.

Það má með sanni segja að Orgelsumar sé hafi hafist með pompi og prakt.

Um næstu helgi fáum við Ensemble Norðsól frá Kaupmannahöfn laugardaginn 13. júlí kl. 12.
Anne Kirstine Mathiesen leikur á orgel, Svafa Þórhallsdóttir syngur og Hanna Englund leikur á selló og munu þær munu leiða okkur í ferðalag um Norðurlöndin. Tónleikarnir eru um 35 mínútur. Upplýsingar um tónlistarkonurnar má finna hér.
Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á https://tix.is/is/event/17600 og er miðaverð 2.700 kr.
 
Sunnudaginn 14. júylí kl. 17 fáum við hjónin Wolfgang og Judith Portugall frá Bensheim í Þýskalandi sem leika á orgel og flautu.

Hjónin Wolfgang og Judith Portugall eru einleikarar, tónlistarkennarar og leika einnig með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum.
Á tónleikunum, sunnudaginn 14. júlí kl. 17 flytja þau tónlist fyrir orgel á flautu eftir Kauffmann, Bach, Krebs, Schlick, Pachelbel, Liszt og Fauré.

Wolfgang Portugall lærði kirkjutónlist við háskólann í Mainz og útskrifaðist þaðan árið 1989 með hæstu einkunn. Hann kennir orgelleik, píanó, hljómfræði og tónheyrn við tónlistarskólann í Frankenthal, við háskólann í Mainz og við kirkjutónlistardeild tónlistarháskólans í Mainz og kemur víða fram á tónleikum bæði sem einleikari og continuo-leikari. Fyrstu tónleikar hans á Íslandi voru árið 1991.

Judith Portugall nam tónlistarkennslu, hljómsveitartónlist og upprunatúlkun við tónlistarháskólana í Heidelberg og Frankfurt. Eftir að hún lauk námi hefur hún einnig sótt meistaranámskeið hjá þekktum listamönnum m.a. Paul Meisen og Konrad Hünteler. Hún starfar sem skólastjóri tónlistarskólans í Groß-Gerau og leikur á flautu með ýmsum hljómsveitum m.a. „Churpfälzische Hofcapelle“. Tónleikarnir eru um 60 mínútur.
Miðasala í kirkjunni og á https://tix.is/is/event/17606
Aðgangseyrir 3.700 kr.
 
Meðfylgjandi myndir tók Sólbjörg Björnsdóttir tónleika- og kynningarstjóri í Hallgrímskirkju á Opnunartónleikum Orgelsumars í Hallgrímskirkju sl. sunnudag.
 
HALLGRÍMSKIRKJA – ÞINN TÓNLEIKASTAÐUR!