Vorhátíð í Hallgrímskirkju 14. maí

11. maí 2023
Fréttir

Hallgrímskirkja blæs til vorhátíðar og kveður veturinn með stæl. Það verður létt og skemmtileg fjölskylduguðsþjónusta kl. 11 sem verður full af hæfileikaríkum börnum og ungmennum sem syngja, spila á hljóðfæri og dansa. Fiðluhópur frá Allegro Suzuki tónlistarskólanum leikur undir stjórn Lilju Hjaltadóttur. Stúlknakór Reykjavíkur kemur og syngur undir stjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur kórstjóra. Danshópurinn Dass sýnir dansatriði sem þau munu sýna í Dance World Cup í Portúgal í júní nk. Það er hinn almenni bænadagur í kirkjuárinu á sunnudaginn og því verður sett upp bænasnúra sem söfnuðurinn býr til í sameiningu. Trúðurinn Daðla kemur og heilsar upp á krakkana. Eftir guðsþjónustuna verður boðið upp á sjóræningjahoppukastala (ef veður leyfir), grillaðar pylsur, svala, kríta, húllahringi, sápukúlur, sippubönd, leiki og föndur. Börn úr Æði-flæði vorsmiðjunni munu gefa börnunum popp. Verið hjartanlega velkomin!