Sunnudaginn 20. júní er guðsþjónusta kl. 11.00 í Hallgrímskirkju
Kvennakórinn Vox Feminae syngur og leiðir söng. Organisti er Björn Steinar Sólbergsson.
Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum.
Í prédikun dagsins á alþjóðlegum degi flóttamanna 20. júní verður fjallað um Guð vonarinnar, flóttann, frelsið og skjólið í tengslum við guðspjall dagsins. Við syngjum sálm Ólínu Andrésdóttur "Skín guðdóms sól.." þar sem skáldkonan segir m.a. : " ...og vængjalyfting vona barni lágu" ..
Skáldkonur og kventónskáld verða í forgrunni en Björn Steinar Sólbergsson leikur Fantasíu um ´Ísland, farsælda Frón´ eftir Hildigunni Rúnarsdóttur og sungnir verða sálmar eftir Ólínu Andrésdóttur og Rósu B. Blöndals
---------------------------------
Sálmar sunnudagsins:
178 Nú ljómar dýrðardagur,
343 Skín guðdóms sól á hugarhimni mínum
169 Ljómi Guðs veru líður nú
Guðspjall: Jóh 6.37-40
Allt sem faðirinn gefur mér mun koma til mín og þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka. Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig. En sá er vilji þess sem sendi mig að ég glati engu af öllu því sem hann hefur gefið mér heldur reisi það upp á efsta degi. Því sá er vilji föður míns að hver sem sér soninn og trúir á hann hafi eilíft líf og ég mun reisa hann upp á efsta degi.
Lexía: Jón 4
Jónas fylltist mikilli gremju, honum brann reiðin og hann sagði við Drottin:
Ó, Drottinn! Var það ekki einmitt þetta sem ég sagði áður en ég fór að heiman? Það var vegna þessa sem ég í fyrstu vildi flýja til Tarsis því að ég vissi að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur, og þú iðrast ógæfunnar og lætur refsinguna ekki dynja yfir. En nú, Drottinn. Taktu líf mitt því að mér er betra að deyja en lifa. Drottinn svaraði: Gerir þú rétt er þú reiðist?
Jónas hafði gengið út úr borginni og búið um sig fyrir austan hana í því skyni að reisa sér laufskála og setjast undir hann í skuggann og bíða þess hvað yrði í borginni. Þá leiddi Drottinn Guð fram rísínusrunna. Hann óx yfir Jónas og varpaði skugga á höfuð hans og linaði beiskju hans og gladdist hann mjög af rísínusrunnanum.
En þegar birti af degi og roðaði af morgni sendi Guð orm sem stakk rísínusrunnann svo að hann visnaði. Og er sól var á lofti leiddi Guð fram brennheitan eyðimerkurvindinn og sólin stakk Jónas í höfuðið svo að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: Ég vil heldur deyja en lifa.
Guð sagði þá við Jónas: Hyggurðu að þú reiðist með réttu vegna rísínusrunnans?
Hann svaraði: Ég geri rétt er ég reiðist til dauða.
Þá sagði Drottinn: Þú kennir í brjósti um rísínusrunnann sem þú hefur hvorki haft erfiði af né komið upp. Hann óx á einni nóttu og visnaði á einni nóttu. Ætti ég ekki að sjá aumur á Níníve, hinni miklu borg, þar sem meira en hundrað og tuttugu þúsundir manna búa, sem þekkja vart hægri höndina frá þeirri vinstri, og að auki fjöldi dýra?
Pistill: 2Kor 5.17-21
Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til. Allt er frá Guði sem sætti mig við sig fyrir Krist og gaf mér þjónustu sáttargerðarinnar. Því að það var Guð sem í Kristi sætti heiminn við sig er hann tilreiknaði mönnum ekki afbrot þeirra og fól mér að boða orð sáttargjörðarinnar.
Ég er því erindreki Krists sem Guð notar til að hvetja ykkur. Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð. Guð dæmdi Krist, sem þekkti ekki synd, sekan í okkar stað til þess að hann gerði okkur réttlát í Guðs augum.